Forsíðan á Sjómannadagsblaði Snæfellsbæjar 2016.

Sjómanndagsblað Snæfellsbæjar 2016

 

Pétur Steinar Jóhannsson í Ólafsvík er sem fyrr ritstjóri Sjómannadagsblaðs Ólafsvíkur sem  gefið verður út fyrir sjómannadaginn. Gefum Pétri orðið um efni blaðsins hjá honum að þessu sinni:

„Efni Sjómannadagsblaðsins að þessu sinni er m.a. viðtal við Hermann Magnússon sjómann í Ólafsvík og konu hans Svanhildi Pálsdóttur en hann er 70 ára á þessu ári og þau bæði hafa frá mörgu skemmtilegu að segja. Þá er viðtal við heiðurskonuna Aldísi Stefánsdóttur um það sem á daga hennar hefur drifið en hún flutti á Hellissand aðeins fimmtán ára gömul 1949 frá Norðfirði og var ráðin þar á heimili í vist. Þá er Gísli Kristjánsson fv. skipstjóri í Grundarfirði tekinn tali og hefur hann frá mjög mörgu að segja. Hann var bæði á síðutogurunum og seinna á bátunum og hann ber þetta saman á sinn ,,kómíska“ hátt. Stórfróðleg grein er eftir Egil Þórðarsson fv. loftskeytamann en hann byrjaði sinn feril á skuttogaranum Guðsteini HF. Þar segir hann frá hinu þýðingarmikla starfi þeirra um borð í skipunum sem glögglega kom í ljós er togarinn Elliði sökk á Breiðafirði árið 1962. Þá er skemmtileg umfjöllun um Kristmund Halldórsson skipstjóra frá Ólafsvík um samskipti sín við skelveiðisjómenn á  Costa del Sol. Hann gerði meira en að stunda sólina því hann kenndi þeim rétta notkun veiðarfæranna og afkoma þeirra batnaði til mikilla muna. Þá fá sjómannskonur á Snæfellsnesi spurningar og að auki er fjöldi mynda og frásagna.

Blaðið er brotið um í Prentsmiðjunni Steinprent í Ólafsvík og er 92 síður og allt í lit. Á suðursvæðinu verður blaðið til sölu á Grandakaffi í Reykjavík.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir