Útskriftarhópurinn ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara. Ljósm. Svanur Steinarsson.

Brautskráning frá Menntaskóla Borgarfjarðar

Föstudaginn 27. maí voru 26 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Nemendur voru útskrifaðir af félagsfræðibraut, félagsfræðibraut – íþróttasviði, náttúrufræðibraut, náttúrufræðibraut – íþróttasviði, náttúrufræðibraut – búfræðisviði og með viðbótarpróf til stúdentsprófs. Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir skólameistari setti athöfnina og Lilja S. Ólafsdóttir, aðstoðarskólameistari fór yfir annál skólaársins. Gestaávarp flutti Sigursteinn Sigurðsson arkitekt og fulltrúi Hugheima. Ísak Sigfússon flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Athöfnin lauk með ávarpi skólameistara.

 

Viðurkenningar

Anna Þórhildur Gunnarsdóttir var dúx skólans með hæstu einkunn á stúdentsprófi. Hún hlaut einnig viðurkenningu frá danska sendiráðinu fyrir góðan námsárangur í dönsku, verðlaun frá Kvenfélagi Borgarness fyrir góðan árangur í íslensku, verðlaun frá stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og HÍ fyrir góðan námsárangur í tungumálum, varðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir góðan námsárangur í náttúruvísindum, verðlaun frá Stærðfræðifélaginu fyrir góðan námsárangur í stærðfræði og verðlaun frá Arion banka fyrir besta árangur á stúdentsprófi.

Að þessu sinni voru fjórir nemendur sem voru jafnir og fengu viðurkenningu fyrir afburða árangur á lokaverkefni. Það voru Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, Ísak Sigfússon, Rúnar Gíslason og Salvör Svava G. Gylfadóttir. Salvör Svava hlaut einnig hvatningaverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar fyrir góðar framfarir í námi. Guðbjartur Máni Gíslason hlaut hvatningaverðlaun frá Límtré Vírneti fyrir góðar framfarir í námi. Guðbjörg Halldórsdóttir og Herdís Ásta Pálsdóttir hlutu viðurkenningu sem Borgarbyggð gaf fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda við stjórn NMB. Hadda Borg Björnsdóttir hlaut hvatningaverðlaun fyrir sjálfstæði, færni og framfarir í námi og Helga Guðrún Jónmundsdóttir hlaut verðlaun frá Sjóvá Almennum fyrir góðan árangur í íþróttagreinum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir