
Uppfært – Einn slasaður eftir að húsbíll fauk á hliðina
Síðdegis í dag varð umferðaróhapp á þjóðveginum milli bæjanna Grundar og Kvernár í Grundarfirði. Þar er nú bálhvasst og slæmt ferðaveður. Samkvæmt heimildum Skessuhorns fauk húsbíll á hliðina með fjóra erlenda ferðamenn innanborðs. Sjúkrabíll og tækjabíll slökkviliðs voru kallaðir á vettvang. Einn mun hafa slasast alvarlega. Var hann fluttur til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem lenti á móts við Vegamót og flutti viðkomandi undir læknishendur í Reykjavík.