Sumarleikár Frystiklefans hefst í næstu viku

Á miðvikudaginn hefst nýtt Sumarleikár Frystiklefans í Rifi. Það mun standa yfir mánuðina júní, júlí og ágúst þar sem fimm leiksýningar verða í hverri viku. Þar að auki tekur leikhúsið við sérpöntunum á leiksýningar og má því búast við að sýningar hússins verði á milli 75 og 90 í sumar. Sýningarnar verða ýmist sýndar á ensku eða íslensku, fastar kvöldsýningar á ensku en sérpantaðar sýningar fyrir íslenska hópa á íslensku.

Í tengslum við þetta nýja leikár hefur Frystiklefinn ráðið til starfa fjóra atvinnuleikara sem taka þátt í sýningum hússins og öðrum verkefnum þess nú í sumar. Leikarar Frystiklefans í sumar verða Anna Margrét Káradóttir, Ásgrímur Geir Logason, Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Egilsdóttir. Einnig mun Kári Viðarsson eigandi og listrænn stjórnandi hússins taka þátt í sýningum.

„Frystiklefinn er atvinnuleikhús sem hefur fyrir löngu skipað sess sem eitt metnaðarfyllsta og afkastamesta listhús landsins. Þetta leikár er gríðarstórt verkefni sem á sér enga hliðstæðu,“ segir Kári Viðarsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir