Boðar blandað námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mun í næstu viku leggja fram frumvarp um heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Meðal helstu breytinga í frumvarpinu má nefna að námsmenn í fullu námi geta fengið 65.000 krónur á mánuði í beinan styrk. Áfram verður þó veitt námsaðstoð í formi lána á hagstæðum kjörum. Samkvæmt frumvarpinu verður námsstyrkurinn greiddur í allt að 45 mánuði sem svarar til fimm hefðbundinna skólaára. Námsmenn geta ákveðið að taka eingöngu styrk eða styrk og lán eða jafnvel lán að hluta. Heildarstyrkur getur numið allt að 2.925.000 krónum miðað við fulla námsframvindu og hámarkslán miðast við 15 milljónir á hvern námsmann. Heildaraðstoð við hvern námsmann getur því numið tæpum 18 milljónum króna, en yfir 99% nemenda falla undir það viðmið. Vextir lána verða fastir 2,5% og verðtryggðir, að viðbættu álagi til að mæta afföllum af lánum sem er áætlað um 0,5%. Nemendur munu nú geta fengið fulla framfærslu í stað 90% framfærslu nú.

Frumvarpsdrög þessi voru afgreidd úr ríkisstjórn á þriðjudaginn. Um er að ræða grundvallar breytingu á námsaðstoð ríkisins sem miðar að því að koma á fót blönduðum styrktarsjóði að norrænni fyrirmynd. Markmið breytinga á lögunum er að tryggja áfram jafnan aðgang að námi, skapa aukið réttlæti og gegnsæi við úthlutun styrkja og skapa fyrirsjáanleika fyrir námsmenn og lánasjóðinn. Jafnframt er markmiðið að tryggja námsmönnum fulla framfærslu og gefa þeim aukinn kost á að mennta sig án skuldsetningar.

Aðfaranám eða svokallað frumgreinanám fyrir einstaklinga sem orðnir eru 23 ára verður aðstoðarhæft. Hins vegar verður nám sem skipulagt er með vinnu ekki aðstoðarhæft. Nemendur 18 ára og eldri í iðn- og verknámi geta notið námsaðstoðar. Þá kemur fram í drögum að frumvarpinu að uppgreiðslu lána skuli ávallt vera lokið fyrir 67 ára aldur. Endurgreiðslur lána verða fastar mánaðarlegar afborganir líkt og er á öllum hinum Norðurlöndunum, í stað tekjutengdra afborgana eins og nú er hér á landi að hluta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir