Staða fjarskipta og vegakerfis óviðunandi að mati stjórnenda

Staða vegakerfisins á Vesturlandi er ekki góð og fer versnandi að mati forsvarsmanna í fyrirtækjum á Vesturlandi sem tóku þátt í könnun sem SSV þróun og ráðgjöf framkvæmdi í desember síðastliðnum. Spurt var um ýmsa þætti í rekstri fyrirtækja, svo sem menntun starfsfólks og aðra áhrifaþætti í umhverfi þeirra. Niðurstaðan birtist í fréttabréfinu Glætu, hagvísi sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi gefur út í þessari viku. Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV vann úr niðurstöðum könnunarinnar: „Niðurstaðan segir okkur að slæmt ástand sé í samgöngu- og fjarskiptakerfinu öllu, þó svo vegakerfið fái óvenju slæma einkunn í þessari tilteknu könnun. Þá er einnig athyglisvert að sjá að vaxandi óánægja er með ástand í hitaveitumálum og þarfnast sú niðurstaða sérstakrar skoðunar. Líklega tengist sú óánægja því að viðhaldsvinnu hefur staðið yfir á jarðvarmaveitunni í Borgarfirði sem hefur haft áhrif bæði í héraðinu og alla leið á Akranes. Þá er rúmur helmingur dreifbýlis á Vesturlandi sem ekki er tengdur jarðvarmaveitu sem og allt þéttbýlið á Snæfellsnesi, utan Stykkishólms,“ segir Vífill. Hann tekur þó fram að heilt yfir hafi þessi könnun komið vel út fyrir Vesturland, ekki síst þegar niðurstaðan sé borin saman við sambærilega könnun frá 2013. Margir þættir séu að koma betur út. Engu að síður veki niðurstaðan um samgöngur og fjarskipti ugg í ljósi þess að það séu helstu skilyrði vaxtar í ferðaþjónustu að þeir þættir séu í lagi.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að mest var ánægja forsvarsmanna fyrirtækja á Vesturlandi með stöðu neysluvatnsmála, starfsmannamál, bókhaldsþjónustu og í raforkumálum. Þá telja stjórnendur að almennt sé vinnuafl, fjarskipti, samgöngur og orka mikilvægustu þættirnir í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.