Millidómstig verður til á Íslandi

Lagafrumvörp Ólafar Nordal innanríkisráðherra um stofnun millidómstigs var samþykkt á Alþingi í dag. Með breytingunum verður til nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur. Mun hann hafa aðsetur í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2018. Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins. Verður því sú grundvallarbreyting á íslenskri réttarskipan að stað tveggja dómstiga áður verða dómstigin í landinu þrjú; héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Sameiginleg stjórnsýsla dómstiganna þriggja verður færð undir nýja sjálfstæða stjórnsýslustofnun; Dómstólasýsluna. Segir á vef Alþingis að stjórnsýsla dómstólanna sé þar með efld og sjálfstæði þeirra styrkt. „Millidómstiginu er ætlað að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu, létta álagi af Hæstarétti og tryggja að honum sé betur fært að sinna hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll,“ segir á vef Alþingis. Samhliða stofnun millidómstigs verður dómurum Hæstaréttar fækkað um tvo, úr níu í sjö og fimm dómarar hverju sinni munu taka þátt í meðferð mála. Dómurum við héraðsdómstóla landsins verður fjölgað úr 38 í 42. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 506 milljónir króna á ársgrundvelli frá fjárlögum 2016 vegna stofnunar millidómstigs.

 

Mikil réttarbót

Þá var einni samþykkt frumvarp um meðferð einkamála og sakamála. Þar er gert ráð fyrir að meginreglunni um milliliðalausa sönnunarbyrði verði betur fylgt fyrir Landrétti en unnt er samkvæmt gildandi lögum um Hæstarétt, hvort heldur í einkamálum eða sakamálum.

„Stofnun Landsréttar felur í sér mikla réttarbót en með honum er tryggð milliliðalaus sönnunarfærsla á tveimur dómsstigum,“ segir á vef innanríkisráðuneytisins. Í frumvarpinu felst að hinn almenni áfrýjunarréttur í einkamálum verði styttur úr þremur mánuðum í fjórar vikur. Er það sambærilegt við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Heimildir til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar verða tiltölulega þröngar, en sannarlega til staðar, verði þörf á skjótri niðurstöðu í máli. Áfrýjun á dómum Landsréttar til Hæstaréttar verða í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar. Lagt er til að kæruheimildir til hæstaréttar verði fáar. Áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna tilkomu millidómstigs aukist um 109,7 milljónir á ársgrundvelli frá fjárlögum 2016, árin 2018–2021.

Líkar þetta

Fleiri fréttir