Breiðin á Akranesi.

Lýsa miklum vonbrigðum með ákvörðun bæjarstjórnar

Samtökin Betra Akranes hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Akraness í fyrrakvöld um að samþykkja nýtt deiliskipulag á Breið sem heimilar stækkun fiskþurrkunar HB Granda á Akranesi. „Betra Akranes lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðun bæjarstjórnar Akraness sem samþykkti á fundi sínum 24. maí 2016 að leyfa breytt deiliskipulag á athafnasvæði HB-Granda á Breið og þar með byggingu nýrrar verksmiðju undir hausaþurrkun, þá stærstu sinnar tegundar á Íslandi. Ljóst er að hér eru hagsmunir eins fyrirtækis teknir umfram hagsmuni íbúa í nágrenninu – og jafnvel víðar – sem árum saman hafa þurft að þola ódaun frá hausaþurrkuninni og skert lífsgæði og mögulegt verðfall eigna sinna. Með ákvörðun bæjarstjórnar er veðjað á að fyrirtækinu takist að minnka svo ólykt frá nýrri og stærri verksmiðju að hún teljist viðunandi, hvað sem það nú er.“

Þá segir í ályktuninni að haldreipi þeirra fimm bæjarfulltrúa sem ábyrgð bera á þessari samþykkt séu orð forstjóra HB-Granda, sem birtist í minnisblaði til bæjarstjórnar Akraness sem dagsett er sama dag og deiliskiplagsbreytingin var samþykkt, um að fyrirtækið hætti rekstri verksmiðjunnar náist ekki að lágmarka lyktina. „En hversu lengi eiga íbúar að bíða þess að sú ákvörðun verði tekin fari svo að lyktin verði ofan við einhver viðmið sem þó hafa enn ekki verið sett? Fróðlegt er að lesa hugleiðingar forstjóra HB-Granda um þetta í þessu sama minnisblaði: „Það er erfitt að segja hvenær fullreynt er. Ég myndi halda að ef ekki sæist til sólar hvað það varðar [lágmörkun óþæginda vegna ólyktar] til að mynda tveim árum eftir að hvor áfangi um sig verður tekinn í notkun gæti það talist fullreynt.“

Hvernig verður íbúum bættur skaðinn ef ólykt verður viðvarandi frá nýrri verksmiðju eins og núverandi og hver á að gera það? Ætlar Akraneskaupstaður að gera sig skaðabótaskyldan? Hvaða tryggingu hafa bæjarfulltrúar sem og aðrir íbúar Akraness fyrir því að mögulegur nýr forstjóri, ný stjórn fyrirtækisins eða nýir eigendur taki ekki allt aðra afstöðu til málsins? Hvaða möguleika hefur bæjarfélag á að losa sig við óæskilega og umhverfismengandi starfsemi sem kjörnir fulltrúar þess hafa kallað yfir það,“ er spurt í ályktun Betra Akraness.

Að lokum segir í ályktun samtakanna: „Með samþykktu breyttu deiliskipulagi á athafnasvæði HB-Granda á Breið eru bæjarfulltrúarnir fimm líka að leggja blessun sína yfir landfyllingu út í Steinsvör undir verksmiðjuhús 2. áfanga fiskþurrkunarinnar. Þar með hverfur hin eiginlega vör og sá staður á Akranesi hvar útgerð hófst fyrst. Það á því ekki aðeins að taka áhættu með stóra umhverfismengandi hausaþurrkunarverksmiðju í nábýli við þétta íbúabyggð miðsvæðis og eina helstu útivistarperlu bæjarins, heldur á að leyfa einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, sem að hluta á rætur sínar á Akranesi, að eyðileggja minjar um upphaf útgerðar á Íslandi.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir