
Beðið eftir niðurstöðu HEV og Skipulagsstofnunar
Eins og kunnugt er var tillaga um breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis á Akranesi samþykkt í bæjarstjórn síðastliðið þriðjudagskvöld. Nær tillagan til lóðanna að Breiðargötu 8, 8A og 8B sem eru í eigu HB Granda. Samþykkt deiliskipulag var forsenda þess að fyrirtækið geti byggt á þeim stað nýja fiskþurrkunarverksmiðju. Aðspurður um næstu skref varðandi stækkun, segir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda, að málið sé nú inni á borði opinberra stofnana. Hann geti því ekki sagt til um framhaldið að svo stöddu. „Við munum ekki aðhafast neitt fyrr en fyrir liggur starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og samþykki Skipulagsstofnunar á nýju deiliskipulagi. Ég get engu spáð fyrir um hvenær niðurstaða þessara tveggja stofnana liggur fyrir,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Skessuhorn í dag.