„Það þurfa allir á góðu netsambandi að halda“

Ólína Gunnlaugsdóttir á Ökrum er eigandi og framkvæmdastjóri Samkomuhússins á Arnarstapa. Undanfarið hefur internetið verið henni hugleikið. Hún segir að netið sé orðið hluti af daglegu lífi fólks, sjálfsagður hlutur. Ferðamenn séu hættir að spyrja hvort það sé þráðlaust net á staðnum en biðji þess í stað bara um aðgangsorðið. „Ég man ekki eftir neinum núna í langan tíma sem hefur spurt hvort hann megi tengjast. Það er bara beðið um aðgangsorðið. Þráðlaust net er því eiginlega orðin þjónusta sem fólk gerir ráð fyrir. Að það sé opið net og að ekki þurfi að greiða fyrir það,“ segir Ólína í samtali við Skessuhorn.

„Oftast er fólk bara að athuga með flugmiðann sinn, bóka gistingu eða eitthvað slíkt og minnsta mál að veita fólki aðgang að netinu,“ segir hún. En þrátt fyrir að Ólína sé öll af vilja gerð að bjóða gestum sínum upp á netaðgang er það ekki alltaf mögulegt. Hún þarf, líkt og aðrir atvinnurekendur á svæðinu, að gera sér örbylgjutengingu að góðu þar sem truflanir á sambandi séu algengar. „Það er svakalega óþægilegt ef sambandið rofnar þegar maður þarf að hafa nettengdan posa. Maður er kannski með fullt hús af fólki og flestir greiða með korti í dag,“ segir Ólína. Hún segir að þetta hafi leitt til þess að hún hafi þurft að gefa nokkuð mikið af veitingum í gegnum tíðina. Ekki hafi verið um annað að ræða. „Þó fólk sé annars ótrúlega heiðarlegt og leggi inn á reikning þá er alltaf einn og einn sem gerir það ekki, hvort sem hann gleymir því eða af öðrum ástæðum.“

Nánar er rætt við Ólínu í Skessuhorni í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir