Frá fundi bæjarstjórnar fyrr í kvöld. Ljósm. kgk.

Umdeilt deiliskipulag samþykkt í bæjarstjórn

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar síðdegis í dag var fyrsta mál á dagskrá afgreiðsla á tillögu um breytt deiliskipulag fyrir Breiðarsvæðið á Akranesi. Eins og margir þekkja hefur málið verið mjög umdeilt í bæjarfélaginu, hópar fólks bæði lagst á sveif með tillögunni og gegn henni. Skipulagið gerir ráð fyrir að HB Granda verði kleift að stækka til muna fiskþurrkun sína á Breið.

Að loknum ítarlegum umræðum í bæjarstjórn, þar sem allir bæjarfulltrúar tóku til máls, var gengið til atkvæðagreiðslu og urðu lyktir málsins þær að tillagan um breytt skipulag var samþykkt með fimm atkvæðum. Fjórir bæjarfulltrúar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þeir fjórir sem sátu hjá lögðu fram bókun þar sem fagnað er stórhuguðum framtíðaráformum HB Granda á Akranesi, en jafnframt lýst áhyggjum af því að þrátt fyrir góðan vilja og markmið um lágmörkun lyktarmengunar óttuðust bæjarfulltrúarnir að þau markmið næðu ekki fram að ganga. „Því væri starfsemi sem þessari betur borgið á stað þar sem um hana ríkti sátt,“ sagði í lok ályktunar þeirra Ingibjargar Pálmadóttur, Valdísar Eyjólfsdóttur, Valgarðs Lyngdal Jónssonar og Vilborgar Þórunnar Guðbjartsdóttur. Bæjarfulltrúarnir Ólafur Adolfsson, Sigríður Indriðadóttir, Einar Brandsson, Rakel Óskarsdóttir og Ingibjörg Valdimarsdóttir samþykktu tillöguna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir