Ítrekað sakfelld fyrir umferðarlagabrot

Héraðsdómur Vesturlands hefur sakfellt konu á fertugsaldri fyrir ítrekað umferðarlagabrot. Það var Lögreglustjórinn á Vesturlandi sem lagði fram kæru. Hafði konan lagt bifreið sinni á gangstétt við verslunina Nettó í Borgarnesi og síðan ekið henni ótryggðri. Þá þótti konan auk þess óhæf til að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa ólöglegra ávana- og fíkniefna og var hún svipt ökuréttindum. Ákærða er fædd 1982 og hefur áður sætt refsingum sem komu nú til ítrekunaráhrifa þegar dómurinn var kveðinn upp. Var þetta í fimmta sinn sem konan hefur verið sakfelld fyrir akstur undir áhrifum ölvunar eða fíkniefna og í fjórða sinn sem hún var sakfelld fyrir akstur á meðan hún hefur verið svipt ökurétti. Í október í fyrra var hún dæmd í tveggja mánaða fangelsi, meðal annars fyrir ölvunar- og sviptingarakstur, og svipt ökuréttindum ævilangt. Var hún nú dæmd í fjögurra mánaða fangelsi og svipt ökurétti ævilangt. Þá var ákærða dæmd til greiðslu sakarkostnaðar að upphæð 92.499 krónur.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir