Svipmynd frá Skólaþingi. Ljósm. SÁ.

Héldu skólaþing í Stykkishólmi

Laugardaginn 21. maí var Skólaþing Stykkishólmsbæjar haldið þar sem lögð voru fram drög að endurskoðaðri skólastefnu bæjarins. Bæjarstjórn skipaði stýrihóp í haust til að vinna að skólastefnunni og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands var fenginn til stýra vinnunni. Undanfarna mánuði hefur Ingvar haldið fundi með nemendum Grunnskólans og Tónlistarskólans, leikskólabörnum, starfsfólki skólanna þriggja, skólanefndum, æskulýðs- og íþróttanefnd, bæjarstjórn og stýrihópi verkefnisins. Á fundunum hefur verið leitað álits á því hvað vel sé gert í skóla- og tómstundastarfi og hvað megi betur fara. Þá hafa fundarmenn verið beðnir um að setja fram hugmyndir um sóknarfæri og lýsa óskum sínum, skólunum til handa. Vel var mætt á Skólaþingið en þangað kom á fjórða tug íbúa bæjarins. Eftir að hafa fengið kynningu á skólastefnunni var þátttakendum skipt í hópa til að ræða þessi drög og koma með athugasemdir og ábendingar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir