Fjölbýlishúsið við Þjóðbraut 1 á Akranesi hefur verið meðal eigna Búmanna. Nú horfir til betri vegar í rekstri félagsins og nýtt leigufélag verið stofnað um íbúðir sem hafa verið baggi á félaginu.

Umsnúningur hjá húsnæðissamvinnufélaginu Búmenn

Í september 2015 var kjörinn nýr formaður stjórnar samvinnufélagsins Búmanna, stjórn endurnýjuð að hluta og öll varastjórn húsnæðissamvinnufélagsins endurnýjuð. „Þegar stjórnin tók við var félagið í frjálsu falli, það var í greiðslustöðvun og ekkert annað blasti við en gjaldþrot félagsins. Ný stjórn hafði það erfiða verk fyrir höndum að bjarga félaginu frá gjaldþroti,“ var meðal þess sem kom fram í ræðu Gunnars Kristinssonar, formanns Búmanna á aðalfundi félagsins 19. maí síðatliðinn. Sagði hann að bregðast hafi þurft hratt við og koma fram með trúverðugar lausnir í málum félagsins. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með ráðgjöfum, lögfræðingum og Íbúðalánasjóði til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins.

„Nú hefur starf stjórnar Búmanna að miklu leyti falist í því að koma félaginu í skjól. Hún hefur unnið að framgangi nauðasamnings gagnvart kröfuhöfum og samningsgerð við íbúðalánasjóð um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Samningur við Íbúðalánasjóð um fjárhagslega endurskipulagningu var forsenda nauðasamnings og öfugt. Á grundvelli þess að 64% kröfuhafa mæltu með því að félaginu yrði veitt heimild til þess að leita nauðasamnings á grundvelli vinnu sem hafði verið unnin, veitti Héraðsdómur Reykjavíkur félaginu heimild til þess að leita nauðasamnings. Á kröfuhafafundi 17. desember sl. greiddu 92% kröfuhafa atkvæði um nauðasamninginn og af þeim sem greiddu atkvæði samþykktu 91% nauðasamninginn,“ segir Gunnar.

„Eftir yfirferð og umsögn ríkisendurskoðunar og tveggja ráðuneyta um samkomulag Íbúðalánasjóðs og Búmanna staðfestu stjórnir beggja aðila samninginn. Í kjölfar samþykktar var hafist handa við að uppfylla ákvæði hans, þ.m.t. að stofna leigufélag, sem í myndu fara lausar íbúðir, sem hafa verið baggi á félaginu. Búið er að ganga frá stofnun félagsins, útbúa samþykktir og kjósa stjórn. Rekstrarlegur aðskilnaður milli Búmanna og leigufélagsins mun verða virkur frá 1. júní næstkomandi.“

KPMG hefur aðstoðað við gerð rekstraráætlunar 2016 fyrir Búmenn og leigufélagið er byggt á forsendum stjórnar. „Þær áætlanir lofa góðu og er útlit fyrir að eftirspurn eftir íbúðum til leigu sé mun meiri en gert var ráð fyrir í rekstraráætlun ársins. Ársreikningurinn sýnir betri afkomu fyrir Búmenn en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona og fara helstu kennitölur í rekstri félagsins batnandi. Rekstur bæði húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna og leigufélags Búmanna í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar lofar góðu og er stjórn félagsins bjartsýn á framtíð þess,“ segir Gunnar Kristinsson.

Gunnar segir að nú þegar búið sé að koma í veg fyrir gjaldþrot verði farið í að skoða innri mál félagsins. „Ráðinn verður nýr framkvæmdastjóri til félagsins í sumar sem mun hafa með höndum uppstokkun á skrifstofu félagsins. Ráðinn hefur verið umsjónarmaður fasteigna og munu öll viðhaldsmál félagsins verðar endurskoðuð frá grunni. Það sama má segja um söluferli búseturéttar. Nýjar samþykktir verða samdar á grundvelli nýrra laga um húsnæðissamvinnufélög sem tóku gildi 3. maí s.l. „Heilt yfir er framtíð húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna björt og hægt er að horfa með bjartsýni í huga fram á veginn enda hefur kraftaverk átt sér stað í starfsemi húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir