Rúmlega 135 milljónir í rannsóknir ferðaþjónustu

Markhópagreining, vöktun á ástandi ferðamannastaða og samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu eru á meðal tíu rannsóknaverkefna sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ákveðið að styrkja um samtals 135,3 milljónir króna á næstu mánuðum. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi staðfest tillögu Stjórnstöðvar ferðamála um hverjir hljóti þessa styrki. Fjármögnun er á fjárlögum sem aukafjárveiting í málaflokkinn. Meðal þeirra verkefna sem hæstu upphæðirnar hljóta má nefna að Ferðamálastofa fær 45 milljónir í landamærakönnun til að telja ferðamenn. Þá verður varið 29,2 milljónum króna í talningu ferðamanna eftir landssvæðum. 25 milljónir fara í að kortleggja markhópa í ferðaþjónustu og skipta Íslandsstofa, Háskólinn á Bifröst og RMF þeirri upphæð á milli sín. Stjórnstöð ferðamála fær sjálf 15 milljónir króna til að kortleggja fyrirliggjandi upplýsingar og setja gögnin fram. Loks fær Umhverfisstofnun og Háskóli Íslands samtals 15,3 milljónir króna til að vakta ástand ferðamannastaða og kanna sjálfbærni ferðaþjónustu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir