Þyrlan á toppi fjallsins. Ljósm. tfk.

Lentu þyrlu á toppi Kirkjufells

Kirkjufell við Grundarfjörð er líklega eitt af þekktari fjöllum landsins enda gríðarlega vinsæll viðkomustaður ljósmyndara og náttúruunnenda. Einnig eru margir sem leggja í gönguferðir í kringum fjallið og svo enn aðrir sem ganga upp á það. Sú fjallganga er ekki fyrir lofthrædda enda oft ansi bratt þegar fólk er að fikra sig upp hlíðarnar. Afar sjaldgæft er að menn stytti sér leið og komi flugleiðina á topp Kirkjufells, en sú var þó raunin föstudaginn 20. maí síðastliðinn. Þá kom þyrla aðvífandi yfir Grundarfjörð og lenti á toppi Kirkjufells. Út stigu nokkrir menn og spókuðu sig um á toppnum á meðan þyrlan tók aftur á loft og sveimaði nokkra hringi í kringum fjallið. Þyrlan lenti svo aftur og tók ferðalangana uppí áður en hún hvarf á braut aftur áleiðis í suðurátt.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns lá ekki fyrir heimild landeigenda til þyrlulendingar á fjallinu.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir