Úr álveri Norðuráls á Grundartanga. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósm. úr safni.

Áratugur án fjarveruslysa í kersmiðju

Starfsfólk í kersmiðju álvers Norðuráls á Grundartanga hélt nýlega upp á góðan árangur í öryggismálum. „Hópurinn hefur verið til mikillar fyrirmyndar, stundað örugg vinnubrögð og verið án fjarveruslysa í 10 ár,“ segir í tilkynningu frá Norðuráli. Þar kemur einnig fram að árið 2011 tók Norðurál upp sérstakt nám í öryggismálum. Miðar það að því að allt starfsfólk fyrirtækisins tileinki sér öruggar starfsvenjur. „Ferlið felur í sér að starfsmenn athuga hversu oft ákveðnir hópar starfsmanna framkvæma tiltekin störf á sérlega öruggan hátt. Sérhver hópur fær endurgjöf um hversu vel þeim gengur sem hópi. Í kjölfar þess setur hópurinn sér markmið um hvernig hann getur bætt sig enn frekar. Þetta ferli leggur áherslu á jafningjafræðslu, eftirfylgni og frumkvæði starfsmanna sjálfra til að auka öryggi á vinnusvæði Norðuráls.“

Þá hefur starfsfólk hlotið viðurkenningu bandaríska fyrirtækisins Aubrey Daniels International fyrir framúrskarandi árangur í öryggisverkefninu Öruggu atferli. ADI sérhæfir sig í námi í öryggismálum fyrir fyrirtæki og vinnustaði um heim allan og hefur verið ráðgjafi Norðuráls.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir