Eigendur Krauma. F.v. Hjónin Dagur Andrésson og Bára Einarsdóttir, og Jóna Ester Kristjánsdóttir og Sveinn Andrésson. Ljósm. Krauma.

Stefnt að opnun Krauma í byrjun júlí

Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá standa yfir framkvæmdir við náttúrulaugar Krauma við Deildartunguhver. Fyrsta skóflustungan var tekin 26. apríl 2015, eða fyrir rétt rúmlega einu ári. Síðan hafa eigendur Krauma, hjónin Dagur Andrésson og Bára Einarsdóttir, og Sveinn Andrésson og Jóna Ester Kristjánsdóttir, haft í nógu að snúast. Blaðamaður rak inn nefið í Krauma að morgni síðasta miðvikudags og ræddi við Dag og Jónu Ester. Framkvæmdir stóðu sem hæst þegar Skessuhorn bar að garði. Smiðir voru að slá upp mótum á laugasvæðinu, múrarar og málarar að störfum innandyra og gröfumaður vann í lóðinni. Hellulagningameistarinn var mættur á svæðið að taka stöðu mála og síðar sama dag var von á fimm mönnum sem ætluðu að ljúka við að einangra og tyrfa þakið. Þá eru ekki öll verk talin sem unnin voru þann daginn.

 

Stefnt að opnun Krauma_3

„Eins og þú sérð er allt á fullu núna og hlutirnir gerast hratt,“ sagði Dagur þar sem hann leiddi blaðamann um svæðið. En hvenær stendur til að opna Krauma? „Við stefnum að því að opna í byrjun júlí,“ segir Dagur, en þá verða aðeins rúmir 14 mánuðir liðnir síðan stunguskófla rauf yfirborð lóðarinnar fyrsta sinni. „Þetta hefur allt gengið mjög vel,“ segir Jóna Ester. Þau segja að auðvitað hefði verið óskandi að opna fyrr um sumarið en það skipti samt ekki öllu máli í stóra samhenginu. „Við ætlum að vera með heilsársopnun og leggjum upp með að hafa langan opnunartíma alla daga vikunnar,“ segir Jóna.  Þau eiga ekki von á að slíkt verði neinum vandkvæðum bundið. „Hér er mikil umferð allt árið og stöðugt vaxandi yfir vetrarmánuðina. Við erum svo heppin að það er mikill áhugi hjá fólki í héraðinu að vinna hjá okkur og við eigendur og fjölskyldur okkar munum að sjálfsögðu standa vaktina,“ segja þau.

Nánar má lesa um Krauma í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira