Vinnu lokið við uppfærslu dreifikerfis á Akranesi

Starfsfólk Veitna hefur nú lokið tengivinnu við uppfærslu dreifikerfis rafmagns á Akranesi. Um var að ræða aðgerð sem framkvæmd var í um 50 áföngum á tveggja vikna tímabili. Að sögn Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa Veitna gekk verkið vel og í góðu samstarfi við íbúa og fyrirtæki í bænum. „Með uppfærslunni er rafdreifikerfið nú rekið á 11 kílóvolta spennu í stað sex kílóvolta áður. Það er því traustara, flutningsgeta þess meiri og afhendingaröryggi meira, sérstaklega þegar raforkunotkun er mikil. Ráðist var í þessa aðgerð í tengslum við byggingu nýrrar aðveitustöðvar Veitna fyrir rafmagnið á Akranesi. Veitur vinna nú að því að flytja stóran spenni úr gömlu aðveitustöðinni í þá nýju. Að lokinni tengivinnu þar verður nýja aðveitustöðin, sem er samvinnuverkefni Veitna og Landsnets, tekin í notkun,“ segir Eiríkur Hjálmarsson.

Hann vill koma á framfæri þökkum Veitna til Akurnesinga fyrir þolinmæði meðan á verkinu stóð og fjölmargar ábendingar um hvernig verkinu væri sem best háttað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir