Á myndinni eru frá vinstri: Sigríður Hjálmarsdóttir menningar- og markaðsfulltrúi, Arnar Breki Friðjónsson nemandi í 6. bekk, Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri og Josée Conan. Ljósm. tfk.

Listakona sem gerir óvenjuleg náttúrulistaverk

Franska myndlistarkonan Josée Conan er stödd í Grundarfirði þessa dagana. Hefur hún aðsetur og vinnustofu í Grunnskóla Grundarfjarðar. Hún sækir innblástur sinn í hafið og lífríki þess og er aðallega að mála ýmist sjávarfang. Hún fær nýveiddan fisk og aðrar sjávarafurðir eins og rækju, skel og þang sem hún þvær upp úr ediki og málar svo fiskinn með vatnslitum. Síðan leggur hún pappír yfir fiskinn og þrýstir vel á. Úr þessu fær hún svo mörg mismunandi mótív, eða þrykkmyndir, sem hún málar og og bætir við smáatriðum. Útkoman er alveg mögnuð og myndirnar afar raunverulegar. Fréttaritari Skesshorns þurfti að grandskoða verkin því á tímabili taldi hann sig vera að skoða ljósmynd af fiskum svo vel var þetta unnið og málað. Nemendur og aðrir gestir hafa fengið að fylgjast með henni við vinnu sína og fræðast um aðferðir hennar.

Josée Conan er frá vinabæ Grundarfjarðar, Paimpol, og er hún undir miklum áhrifum frá sögu sjómanna sem réru frá Brittaníuskaga og meðal annars til Íslands. Maðurinn hennar sér oftast um að veiða fiskana og þegar hún hefur lokið sér af með fenginn endar hann yfirleitt á kvöldverðarborði þeirra hjóna þannig að ekkert fer til spillis. Fyrirhugaðar eru sýningar á verkum hennar í Grundarfirði og Reykjavík í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir