Mynd af „Money trap“, en hana notar væntanlegur Heimilisbanki á fréttasíðu sinni.

Samfélagsbanki í undirbúningi

Í undirbúning er íslenskur samfélagsbanki; Heimilisbankinn. Kynningarfundur hefur verið boðaður þriðjudaginn 24. maí næstkomandi en honum hefur enn ekki verið fundinn staður. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. Þar er haft eftir Hólmsteini Brekkan, framkvæmdastjóra Samtaka leigjenda á Íslandi, sem á sæti í undirbúningshópi verkefnisins, að hugmyndin um samfélagsbanka hafi legið í dvala síðan hún var fyrst rædd á stjórnarfundi Hagsmunasamtaka heimilanna árið 2009. Hann segir fólk kalla eftir nýjum valkosti við íslenskt fjármálakerfi. „Samfélagsbankar eru náttúrulega aldrei fjárfestingabankar,“ segir Hólmsteinn. „Þar er einungis um viðskiptaþjónustu að ræða, inn- og útlán, og sá starfsgrundvöllur sem samfélagsbankar byggja á er sá að aðaláherslan er lögð á að þjóna félögunum og þá með hóflegum þjónustugjöldum og hóflegum vöxtum. Svo rennur arðurinn, sem myndast af bankanum eða starfseminni, aðallega í að byggja upp nærsamfélagið.“ Þeim sem kunna að hafa áhuga á að kynna sér málið frekar er bent á heimasíðu Heimilisbankans, heimilisbankinn.is. Þar verður sent út boð um kynningarfundinn þegar nær dregur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir