Hótel Stykkishólmur verður nú Fosshótel Stykkishólmi.

Íslandshótel stórauka umsvif sín á Vesturlandi

Íslandshótel hafa keypt Hótel Stykkishólm og tóku við rekstrinum um síðustu mánaðamót. Hótel Stykkishólmur er vel búið 79 herbergja hótel. Að sögn Davíðs Ólafssonar framkvæmdastjóra Íslandshótela verður Hótel Stykkishólmur framvegis hluti af Fosshótel keðjunni. Íslandshótel reka alls 17 hótel á Íslandi eftir að Hótel Hnappavellir bætast við í sumar. Þá segir Davíð að átjánda hótelið bætist við í sumar og verði það á Vesturlandi. Hann segir að nánar verði upplýst um það síðar.

 

Fosshótel Reykholti í Borgarfirði.

Miklar framkvæmdir í Reykholti

Íslandshótel reka einnig Fosshótel Reykholti í Borgarfirði. Þar segir Davíð Ólafsson að standi til stórfelldar lagfæringar á núverandi húsnæði og stækkun. „Við munum hefja framkvæmdir í sumar í Reykholti. Ætlum okkur að taka í gegn allan gamla hluta hótelsins og byggjum auk þess nýja hótelálmu með 28 herbergjum austur af núverandi byggingu. Í kjallara verður svo spa og ýmis dekuraðstaða fyrir gesti,“ segir Davíð. Eftir þær breytingar verður Fosshótel Reykholti ívið stærra en Fosshótel Stykkishólmi.

Davíð Ólafsson segir að mjög góð nýting verði á hótelunum í sumar og prýðilega horfi með framtíðina. Hótelin hér á Vesturlandi eru rekin á heilsársgrunni og því eru Íslandshótel orðinn stór atvinnurekandi á Vesturlandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir