Urðunarstaður fyrir óvirkan úrgang við Borgarnes

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að endurnýja starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn í Bjarnhólum við Borgarnes. Á vefsíðu Borgarbyggðar er greint frá því að deiliskipulag hafi verið samþykkt fyrir svæðið og 6. apríl síðastliðinn hafi Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs á svæðinu. „Einungis er um að ræða urðun úrgangs sem telst tækur á urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang auk móttöku á garðaúrgangi og hrossataði til frekari meðhöndlunar. Kröfur um ábyrga meðhöndlun úrgangs aukast stöðugt og með starfsleyfi þessu er sveitarfélaginu unnt að meðhöndla hluta þess úrgangs sem myndast á heimaslóðum, úrgang sem að öðrum kosti þyrfti að flytja um langan veg með tilheyrandi kostnaði,“ segir í tilkynningu Borgarbyggðar. Undanfarið hefur verið unnið að framkvæmdum á svæðinu og því skipt niður og hólfað eftir þeim úrgangsflokkum sem þangað berast til meðhöndlunar. Þá verður svæðið girt af og því lokað fyrir almennri umferð. Samkvæmt starfsleyfi skal innheimt gjald fyrir urðun á svæðinu og því hefur gjaldskrá fyrir urðunarstaðinn tekið gildi.

Nánari upplýsingar um starfsleyfi, deiliskipulag og gjaldskrá er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins;  www.borgarbyggd.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir