Þormóðssker á Mýrum.

Stunda óheimila eggjatöku í Þormóðsskeri og fleiri eyjum

Bændur sem eiga og nytja varp á Álftanesi og Straumfirði á Mýrum segjast langþreyttir á óheimilli eggjatöku í eyjunum. Svanur Steinarsson í Straumfirði segir að um síðustu helgi hafi keyrt um þverbak þegar farið var í Þormóðssker og egg hreinsuð þar úr öllum hreiðrum. „Þessir menn eru ekki að virða nytjarétt bænda og okkar landeigenda hér á Mýrunum. Verst þykir okkur þó að þeir eru ekki einungis að taka svartbaksegg heldur einnig gæsaegg og önnur egg sem við vitum að eru stropuð á þessum tíma vors og því alls enginn mannamatur. Þannig eru þeir í raun bara að eyðileggja líf engum til gagns og þar að auki í fullkomnu heimildarleysi,“ segir Svanur.

Hann segist vita hverjir voru síðast á ferð og kveðst vilja höfða til samvisku þeirra, fremur en að leggja fram kæru og höfða mál fyrir þjófnað. „Það er leiðinlegt að standa í slíku, en við landeigendur munum engu að síður leita réttar okkar næst þegar við verðum varir við eggjaþjófnað í eyjunum,“ segir Svanur í samtali við Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir