
Umferðaróhapp sem rekja má til kattar í bílnum
Alls urðu átta umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í vikunni sem leið. Þar af tvö þar sem meiðsl urðu á fólki. Íslenskur ökumaður sem ók Vesturlandsveg til norðurs við Hafnarfjall, missti bíl sinn yfir á öfugan vegarhelming þegar hann var að reyna að handsama kött sem slapp úr búri sem var í bílnum. Lenti bíll hans utan í bíl sem að kom út gagnstæðri átt og síðan framan á bílnum sem kom þar á eftir, en í þeim bíl voru sjö erlendir ferðamenn. Ökumaðurinn slasaðist við áreksturinn og var fluttur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi en fólk í hinum bílunum slapp með skrekkinn. Í ljós kom að kötturinn hafði sloppið lifandi frá þessu þegar hann var loks handsamaður úti í móa. Á hann þá trúlega sex líf eftir, ef marka má goðsögnina.