Breiðin á Akranesi.

Breiðarmálið afgreitt í bæjarstjórn á þriðjudag

Tillaga um breytt skipulag á Breiðarsvæðinu á Akranesi hefur sem kunnugt er verið til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum í nokkra mánuði. Eins og komið hefur fram í fréttum Skessuhorns snýst málið um fyrirhugaða uppbyggingu nýrrar fiskþurrkunarverksmiðju HB Granda á Breið. Málið er sem stendur til umfjöllunar hjá skipulags- og umhverfisráði, sem fundað hefur í þessari viku. Rakel Óskarsdóttir er starfandi formaður ráðsins. Hún kveðst í samtali við Skessuhorn eiga von á því að ráðið ljúki umfjöllun sinni um málið á fundi á morgun, fimmtudaginn 19. maí. „Verklagið er þannig að við þurfum að samþykkja tillöguna í skipulags- og umhverfisráði og þaðan fer hún til afgreiðslu í bæjarstjórn. Ég á von á því að við í ráðinu getum afgreitt þetta frá okkur á morgun og að málið verði því komið inn á borð bæjarstjórnar fyrir næsta fund sem verður þriðjudaginn 24. maí,“ segir Rakel.

 

„Engin ástæða til að draga málið lengur“

Málið hefur verið afar umdeilt meðal Akurnesinga. Samtals lögðu 1287 bæjarbúar nafn sitt við tvo undirskriftalista meðan tillagan var í auglýsingarferli, þar sem annars vegar var skorað á bæjarstjórn að samþykkja tillöguna óbreytta og hins vegar að hafna henni. Auk þess bárust bæjaryfirvöldum yfir 50 umsagnir um tillöguna. Ólafur Adolfsson, oddviti Sjálfstæðisflokks og formaður bæjarráðs, segir í samtali við Skessuhorn að vel hafi gengið að svara þeim athugasemdum sem bárust. Telur hann ekkert því til fyrirstöðu að bæjarstjórn geti afgreitt málið á fundi sínum á þriðjudaginn. „Málið verður þá búið að fara í gegnum þennan lögskipaða feril sem lýkur í skipulags- og umhverfisráði. Þá er næsta skref að taka ákvörðun um málið í bæjarstjórn,“ segir hann. Sér því fyrir endann á þessu umdeilda máli. „Ég á von á ákvörðun liggi fyrir næstkomandi þriðjudag að bæjarstjórnarfundi loknum. Ég veit ekki betur en að öll sjónarmið séu komin fram og því engin ástæða til að draga málið lengur,“ segir Ólafur Adolfsson að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir