Skjáskot af nýrri heimasíðu Borgarbyggðar.

Ný vefsíða Borgarbyggðar tekin í notkun

„Vinna við nýju vefsíðuna hjá Borgarbyggð hófst i haust, þar sem við hófum samstarf við vefsmíðiþjónustu Tækniborgar, sem er starfandi þjónustufyrirtæki hér í Borgarnesi,“ segir Gestur Andrés Grjetarsson, tölvuumsjónarmaður Borgarbyggðar, en ný vefsíða sveitarfélagsins var tekin í notkun í dag, miðvikudaginn 18. maí. Vefsíðan er unnin í WordPress af Aroni Hallssyni vefhönnuði hjá Tækniborg. „Við ákváðum að nota opin hugbúnað og var WordPress valið sérstaklega sem grunnkerfi í frágangi og þróun á nýrri vefsíðu okkar, sem hefur gefist vel og býður upp á mikla möguleika,“ segir Gestur Andrés Grjetarsson, tölvuumsjónarmaður Borgarbyggðar, í samtali við Skessuhorn.

Nýrri heimasíðu er ætlað að gera upplýsingagjöf til notenda skilvirkari. „Markmið okkar er að einfalda síðuna til muna, færa hana í nútímabúning og gera margt í henni sjálfvirkt og gagnvirkt til að auka og efla þjónustu við íbúana,“ segir Gestur. Þannig hefur til dæmis verið tekin í notkun rafræn íbúagátt þar sem hver og einn getur haft öll sín mál á einum stað. Rafræn skilríki eða Íslykil þarf til að skrá sig inn á íbúagáttina. „Við höfum uppfært á skipulagssviðinu tengingakerfið okkar og opnað íbúagátt þar sem allar aðalumsóknir og afgreiðsla stjórnsýslunnar fer fram rafrænt. Þetta má allt skoða á vefsíðunni í dag,“ segir hann.

 

„Þess er að vænta að einhverjir hnökrar komi í ljós á næstu dögum og biðjum við notendur að sýna biðlund á meðan. Hönnuði og öllum sem komið hafa að gerð síðunnar eru færðar þakkir fyrir og er þess vænst að þessi breyting falli í góðan jarðveg. Í framhaldinu munu aðrar stofnanir Borgarbyggðar fá nýjar heimasíður byggðar á sama kerfi,“ segir á nýrri heimasíðu Borgarbyggðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir