Sóttu vélarvana skemmtibát inn í Hvalfjörð

 

Sjóflokkur Björgunarfélags Akraness var kallaður út klukkan 1:30 í nótt til aðstoðar vélarvana skemmtibát sem staddur var á Hvalfirði, skammt inn af Grundartanga. Að sögn Jóns Gunnars Ingibergssonar hjá björgunarfélaginu sigldu þeir á Margréti Guðbrandsdóttur frá Akranesi og inn á fjörð. Einnig var björgunarsveitarbíll sendur inn á Grundartanga til að svipast um eftir bátnum. Um borð í skemmtibátnum var einn fullorðinn og tvö börn. Siglt hafði verið frá Maríuhöfn í Hvammsvík og hafði vélarbilun orðið. Það tók björgunarsveitarmenn dálitla stund að finna bátinn í myrkrinu en um borð voru ekki staðsetningar- eða fjarskiptatæki. Þegar báturinn fannst var taug komið um borð og hann dreginn aftur í Hvammsvík. Að sögn Jóns Gunnars gekk ferðin vel og fremur stillt var í sjó.

Líkar þetta

Fleiri fréttir