Tekist á um meint vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa vegna lóðasamnings

Á fundi í sveitarstjórn Borgarbyggðar í gær var rætt um samning sveitarfélagsins við lóðarhafa Borgarbrautar 57 – 59 í Borgarnesi þar sem byrjað er að taka grunn fyrir byggingu hótels og íbúðakjarna fyrir eldri borgara. Ekki er laust við að gustað hafi um fundarmenn jafnvel þótt gluggar hafi flestir verið lokaðir. Undir þessum lið kvað meðal annarra Guðveig Eyglóardóttir oddviti Framsóknarflokks sér hljóðs og lagði fram bókun fyrir hönd framsóknarmanna. Þar sagði meðal annars að efni samnings við lóðarhafa frá því í lok apríl hafi komið á óvart og væri ekki í samræmi við þær umræður sem sveitarstjórn hefði átt um málið. Vísaði hún þar til ákvæðis í samningnum um möguleg kaup eða leigu sveitarfélagsins á tveimur íbúðum fyrir eldri borgara í húsinu, mögulega leigu þjónusturýmis og fleira. Guðveig gekk lengra og gagnrýndi meint pólitísk tengsl byggingaraðila og núverandi formanns byggðarráðs. „Í ljósi pólitískra tengsla byggingaraðila og formanns byggðarráðs þar sem báðir aðilar sátu í sveitarstjórn á síðasta kjörtímabili fyrir Samfylkinguna þá vaknar spurning um vanhæfi formanns byggðaráðs með vísan til þess að hér séu fyrir hendi þær aðstæður sem fallnar eru til þess að draga óhlutdrægni viðkomandi í efa með réttu.“ Vísaði Guðveig þar í siðareglur sveitarstjórnarmanna.

Geirlaug Jóhannsdóttir svaraði þessum ávirðingum og lagði í kjölfar bókunar Guðveigar fram ítarlega bókun þar sem hún rakti aðdraganda þess að nú hefur verið ráðist í þessa stóru framkvæmd á lóðunum Borgarbraut 57-59. Hún minnti á að öll sveitarstjórn hafi frá upphafi verið þátttakandi í viðræðum við lóðarhafa um að koma framkvæmdinni í gang og aldrei á þeim tíma hafi komið fram gagnrýni á að sveitarfélagið kæmi að því verkefni með þeim hætti sem nú er orðið. „Framkvæmd af þessari stærðargráðu getur aldrei verið yfir gagnrýni hafin. Leitast hefur verið við að koma til móts við ábendingar íbúa með því m.a. að draga úr skuggamyndun og byggingarmagni og bæta við bílastæðakjallara,“ skrifaði Geirlaug meðal annars í bókun sinni sem svar við gagnrýni Guðveigar. Í pontu lét Geirlaug þess einnig getið að upphafleg lóðaúthlutun Borgarbyggðar hafi verið við óstofnað félag í eigu Snorra Hjaltasonar og Jóhannesar Freys Stefánssonar. Sú úthlutun hafi átt sér stað í tíð fyrrverandi meirihluta í sveitarstjórn þar sem Guðveig var formaður byggðarráðs. Lóðarsamningur sem gerður var í lok apríl sé hins vegar við fyrirtækið Hús og Lóðir ehf sem alfarið er í eigu Snorra Hjaltasonar og tengist Jóhannesi Frey ekki með beinum hætti.

Bókanir þeirra Guðveigar og Geirlaugar eru býsna langar og ítarlegar og vísast í fundargerð á vef Borgarbyggðar fyrir þá sem vilja kynna sér innihald þeirra í þaula.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira