Fulltrúar yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi tóku á móti fólki með meðmælalistana. Hér er fulltrúi Guðna Th Jóhannessonar í dyragættinni. Ljósm. arg.

Straumur í héraðsdóm með meðmælendalista

 

Blaðamaður Skessuhorns var fyrir hádegi í dag viðstaddur þegar nokkrir frambjóðendur eða fulltrúar þeirra mættu með meðmælendalista til yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi vegna forsetakosninganna í sumar. Yfirkjörstjórn hafði auglýst að hún tæki á móti frumriti meðmælendalista milli klukkan 10 og 12 í dag í húsnæði Héraðsdóms Vesturlands í Borgarnesi. Meðan blaðamaður átti viðdvöl komu í húsnæði dómsins fulltrúar Guðna Th Jóhannessonar, Hildar Þórðardóttur og auk þess Ástþór Magnússon í eigin persónu. Óli Björn Kárason blaðamaður og fyrrverandi alþingismaður var einnig mættur með meðmælalista undir hönd en hann vildi ekki gefa uppi fyrir hvern hann væri að skila inn meðmælendalista og vildi yfirleitt alls ekkert ræða við blaðamann. Að líkindum var Óli Björn að skila inn lista fyrir framboð Davíðs Oddssonar.

Alls höfðu 14 einstaklingar boðað framboð til forseta. Samkvæmt heimildum á kjarninn.is má ætla að Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Magnús Ingi Magnússon og Magnús Ingberg Jónsson nái ekki að vera með í baráttunni um Bessastaði í vor. Þau nái líklega ekki nægum fjölda meðmælenda, sem þau eiga að skila í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir