Gullhólmi kemur til hafnar í Ólafsvík fyrr í vikunni. Ljósm. af.

Gullhólmi hefur gert góða róðra

Línubáturinn Gullhólmi SH frá Stykkishólmi hefur gert góða róðra að undanförnu og á þriðjudagskvöld landaði báturinn 28 tonnum af fallegum þorski sem fer allur í salt hjá Agustson sem á og rekur bátinn. Pétur Erlingsson skipstjóri var að vonum ánægður þegar fréttaritari Skessuhorns hitti hann við löndun. „Þetta er stærsti róðurinn hjá okkur. Við lögðum 24 þúsund króka út af Jökli og fengum þennan afla en þetta er allt slægt hjá okkur,“ sagði Pétur kampakátur. Alls eru fimm í áhöfn og eru tvær áhafnir. „Við róum í hálfan mánuð og svo tekur önnur áhöfn við og rær sömuleiðis í hálfan mánuð,“ sagði Pétur þegar fréttaritari Skessuhorns hitti hann að máli á höfninni í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir