Starfsfólki og eigendum Gamla Kaupfélagsins munaði ekkert um að stilla sér upp á mynd þó unnið væri hörðum höndum að enduropnun staðarins síðar sama dag. F.v. Þóra Björk Þorgeirsdóttir, Jósef Halldór Þorgeirsson, Ísólfur Haraldsson, Valdimar Ingi Brynjarsson og Gunnar Hafsteinn Ólafsson.

Gamla Kaupfélagið opnað að nýju

Gamla Kaupfélagið á Akranesi verður enduropnað í dag, föstudaginn 13. maí klukkan 17:00, þegar tekið verður á móti fyrstu matargestunum.

Eins og Skessuhorn greindi frá í aprílbyrjun var staðnum lokað tímabundið vegna eigendaskipta. Félagið Veislur og viðburðir ehf. hefur tekið við rekstri Gamla Kaupfélagsins, en að félaginu standa Ísólfur Haraldsson og Gunnar Hafsteinn Ólafsson matreiðslumaður. Síðan þá hefur verið ráðist í nokkrar endurbætur á húsnæðinu. Meðal þeirra má nefna að sviði stóra salarins hefur verið breytt lítillega og aðstaðan baksviðs bætt til muna. Myndir prýða veggi hússins sem hafa verið málaðir að nýju.

En það sem fangar augað fyrst er veitingasalurinn. Hann hefur verið endurhannaður, skartar nýjum lit og málverk eftir listamanninn Bjarna Þór hafa fengið stað á veggjunum. „Við endurinnréttuðum veitingasalinn og gerðum hann heimilislegri. Staðurinn á að vera dálítið „hómí“, andrúmsloftið afslappað og ekkert stress,“ segir Ísólfur. „Við fengum leikmyndahönnuð úr Fast and the Furious til að mála veitingasalinn fyrir okkur í þessum fína lit. Auk þess höfum við átt í samstarfi við Bjarna Þór og málverk eftir hann munu prýða veggina í húsinu,“ bætir hann við.

 

„Maturinn verður góður“

Aðspurður um matinn er svar matreiðslumannsins einfalt. „Maturinn verður góður,“ segir Gunnar léttur í bragði en bætir því við að matseðillinn sé einfaldur og hnitmiðaður. „Þannig finnst mér að matseðlar eigi að vera. Við verðum með eldbakaðar pitsur og bistro-seðil með grilluðum hamborgurum, pastaréttum og fleiru slíku,“ segir hann. „En á kvöldverðarseðlinum verða meðal annars tveir fiskréttir og steikur í steikhússtíl. Allar steikurnar verða grillaðar, hvort sem um er að ræða naut, lamb eða kjúkling og gestir hafa val um meðlæti og sósur. Steikurnar verða síðan bornar fram á viðarplatta,“ bætir Gunnar við.

„Við vonum að fólk njóti þess að koma hingað að borða góðan mat. Í framtíðinni munum við svo reyna að standa fyrir lifandi menningarviðburðum í húsinu,“ segja eigendurnir að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir