Dulúðleg þoka lá úti á firðinum en risasnekkjan blasir við vegfarendum sem leið eiga milli Ólafsvíkur og Rifs. Ljósm. af.

Fjörutíu milljarða snekkja liggur við ankeri við Snæfellsnes

Það lá við umferðarteppu í morgun þegar vegfarendur sem voru á ferð á milli Ólafsvíkur og Rifs sáu risasnekkju úti á víkinni. Margir vegfarendur stöðvuðu bíla sína til þess að freista þess að ná myndum af dýrðinni. Þessi snekkja ber nafnið A og er 120 metra löng og er í eigu rússneska auðkýfingsins Andrey Melnichenko sem var í fyrra talinn í 137. sæti yfir ríkustu menn jarðar. Snekkjan A er metin á 39 milljarða króna og er til sölu, ef einhverjir áhugasamir vilja vita af því. Ástæða sölunnar er sú að Rússinn vill kaupa stærri snekkju. Um borð í A eru 70 áhafnarmeðlimir.

Snekkjan líkist einna helst geimskipi en í henni er m.a. sundlaug, bar, þyrlupallur og til þess að komast inn í aðal svefnherbergið þarf að reiða sig á fingrafaraskanna. Einungis fimm einstaklingar komast þangað inn. Þá er snekkjan drekkhlaðin speglum og kristal sem Melnichenko segist hafa mikið dálæti á. Nánast hver einasta tomma í snekkjunni er sérhönnuð til þess að mæta þörfum Melnichenko. Í því samhengi má nefna kranana í sturtuklefa sem hver um sig kostaði rúmlega fimm milljónir króna. Í snekkjunni er einnig stærðarinnar bátaskýli sem hýsir þrjá hraðbáta .

 

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir