Á meðfylgjandi mynd eru Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs á Akranesi, Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, Dagur B Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi. Farin var prufusigling yfir flóann þegar verkefnið var fyrst í undirbúningi. Sá undirbúningur mun taka lengri tíma.

Engar flóasiglingar á þessu ári eins og ráðgert var

Bæjarráð Akraness ákvað á fundi sínum fimmtudaginn 12. maí að hafna öllum tilboðum sem bárust í fyrirhugaðar flóasiglingar með litlum farþegabáti milli Akraness og Reykjavíkur. Þrjú tilboð bárust í verkefnið en ekkert þeirra samræmdist markmiðum sveitarfélaganna um tilraunaverkefni í sumar. Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar. Þar segir að markmið tilraunaverkefnisins hafi átt að vera að kanna rekstrargrundvöll reglulegra bátsferða milli Akraness og Reykjavíkur frá maí til september. Gert var ráð fyrir því að rekstraraðili myndi safna gögnum varðandi rekstrarþætti á þessu tímabili.

Rekstraraðilarnir þrír sem boðið var til viðræðna vegna fyrirhugaðra flóasiglinga horfðu allir til lengra samningstímabils en fulltrúar sveitarfélaganna höfðu í huga. Bæjarráð Akraness samþykkti því að endurskoða útboðsskilmála með það fyrir augum að bjóða flóasiglingar út á nýjan leik í tíma þannig að þær geti hafist fyrir sumarið 2017.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir