Frá opnun sýningarinnar. Ljósm. þa.

Sýning á verkum Fríðu opnuð í Átthagastofunni

Sýning á verkum eftir Hallfríði Eiðsdóttur var opnuð í Átthagastofu Snæfellsbæjar 4. maí síðastliðinn. Það er Félag eldri borgara í Snæfellsbæ sem stendur fyrir sýningunni. Guðrún Tryggvadóttir bauð gesti velkomna og opnaði sýninguna. Í ræðu sinni fór hún yfir það hvernig það kom til að félagið eignaðist þessa muni og af hverju sýningin er haldin. Hallfríður, eða Fríða eins og hún var alltaf kölluð, rak gallerí á árum áður með manni sínum. Þegar þau hættu með galleríið afhenti hún félaginu allt sem verið hafði í galleríinu og bað sérstaklega fyrir skelja- og kuðungamyndir sem hún hafði gert. Fannst Guðrúnu þetta einstakt tækifæri til þess að eignast svona gott dæmi um alþýðulist. Minntist hún þess að þegar hún var sjálf barn voru vindlakassar skreyttir með kuðungum notaðir sem skartskripaskrín og þóttu glæsigripir sem voru til á mörgum heimilum. Eftir Fríðu liggja margs konar verk enda lék allt í höndunum á henna. Hún var einnig mjög fljót að tileinka sér nýtt föndur. Hún var einnig víkingur í prjónamennsku og eftir hana liggja ófáar lopapeysur, vettlingar, dúkar og margt fleira.

Líkar þetta

Fleiri fréttir