Forsetasetrið á Bessastöðum í Álftaneshreppi syðri.

Frambjóðendur þurfa að skila meðmælendalistum í fyrramálið

 

Yfirkjörstjórnir á landinu munu á morgun föstudaginn 13. maí veita undirskriftum væntanlegra forsetaframbjóðenda viðtöku, hver í sínu kjördæmi. Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi óskar eftir því að frambjóðendur skili frumriti meðmælalista með nöfnum úr kjördæminu í dómssal Héraðsdóms Vesturlands, Bjarnarbraut 8 í Borgarnesi, milli klukkan 10 og 12 á morgun. Þá verður hægt að undirbúa vottorðsgjöf. Yfirkjörstjórn kemur síðan saman til fundar að Hótel Borgarnesi fimmtudaginn 19. maí klukkan 13:00 til þess að gefa vottorð um meðmælendur forsetaefna samkvæmt lögum um framboð til forseta Íslands.

Hver frambjóðandi þarf að skila minnst 1.500 undirskriftum úr öllum landsfjórðungum. Framboð til embættis forseta Íslands rennur út 21. maí næstkomandi. Nú eru samtals 14 í framboði sem þýðir að yfirkjörstjórnir gætu þurft að yfirfara allt að 21 þúsund undirskriftir á næstu dögum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að einhver forsetaefni nái ekki að safna nægjanlega mörgum meðmælendum í tæka tíð. Það eiga jú ekki öll forsetaefni hamborgarastað!

Líkar þetta

Fleiri fréttir