Hlédís Sveinsdóttir hér við tökur í Dölum. Gestgjafarnir eru félagar í Nikkólínu. Ljósm. Heiðar Mar Björnsson.

“Að vestan” vikulega til allra landsmanna á N4

“Við hjá N4 höfum á undanförnum misserum fært markvisst út kvíarnar. Stafræn upplýsingatækni gerir það að verkum að stöðin nær nú til svo að segja allra heimila landsins. Hryggjarstykkið í okkar dagskrárgerð eru þættirnir með forskeytið “Að” og okkar stefna er að þessir þættir séu framleiddir af fólki sem býr á viðkomandi svæðum. Þátturinn “Að vestan” hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og ég fagna því sérstaklega að þátturinn sé loksins orðinn að veruleika. Sveitarfélögin og fleiri aðilar tóku okkur fagnandi, sem var forsendan fyrir því að hægt var að hefjast handa fyrir alvöru. Okkar stefna er að þættirnir séu framleiddir af fólki sem býr á viðkomandi svæðum og við vorum svo heppin að fá Hlédísi Sveinsdóttur og Heiðar Mar Björnsson til liðs við stöðina,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmda- og rekstrarstjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri í samtali við Skessuhorn. María Björk segir að bæði Hlédís og Heiðar Mar búi á Akranesi og þekki Vesturland vel. „Hlédís sér um dagskrágerðina, en hún er að stíga sín fyrstu skref í fjölmiðlun. Heiðar Mar er aftur á móti vel sjóaður og reyndur tökumaður og klippari. Fyrstu þættirnir lofa sannarlega góðu varðandi framhaldið,” segir María Björk. Þátturinn “Að vestan” hóf nýverið göngu sína á stöðinni og er nýr þáttur sýndur vikulega.

 

Nánar er fjallað um þættina Að vestan í Skessuhorni vikunnar.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir