Safnasvæðið í Görðum. Ljósm. fh.

Nýir rekstraraðilar opna Garðakaffi á næstu dögum

Á næstu dögum verður Garðakaffi á Akranesi opnað á nýjan leik. Hjónin Auður Líndal og Baldur Ólafsson hafa tekið við sem nýir rekstraraðilar kaffihússins. Að sögn Auðar er allt á fullu í undirbúningi og stefna þau á að opna sem allra fyrst. Garðakaffi verður rekið með breyttu sniði frá því sem áður var. „Ég vona að við getum frískað þetta eitthvað upp. Við ætlum að bjóða upp á eitthvað fyrir alla, verðum með sykurlaust í bland við eitthvað sætara,“ segir Auður í samtali við Skessuhorn. Hún segir matseðilinn ekki alveg ákveðinn en segir að boðið verði upp á safa, samlokur og jafnvel súpu. „Þetta verður ekki veitingahús sem slíkt en við tökum á móti hópum. Við verðum með fjölbreytt úrval af veitingum, stefnum á að vera með smárétti og eitthvað gott með hvítvínsglasinu,“ segir Auður.

Opnunartími Garðakaffis verður sá sami og á Safnasvæðinu, frá klukkan 11 til 17 alla daga vikunnar og jafnvel lengur. Safnaskálinn hefur tekið breytingum að innan og segir Auður þar sem steinasafnið var áður sé nú nýtt barnahorn þar sem hægt sé að leika sér. Þá segir hún að staðið verði fyrir viðburðum á svæðinu í sumar. „Þarna verða til dæmis tónleikar með Valgerði og Þórði og við stefnum á að vera með eitthvað, að poppa þetta aðeins upp. Þarna er frábær útiaðstaða sem hefur verið svolítið vannýtt. Þetta er frábært svæði með alls kyns möguleikum,“ útskýrir Auður Líndal.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir