Kynningarplakat fyrir Gráskinnu Geirs Konráðs í Landnámsserinu.

Gráskinna á fjalir Sögulofts Landnámssetursins

Í Landnámssetrinu í Borgarnesi eru nú hafnar sýningar á nýju íslensku leikverki sem flutt verður á ensku og er fyrst og fremst hugsað fyrir ferðamenn sem leið eiga um. Verkið nefnist Gráskinna og ber undirtitilinn „The Saga of Black Magic in Iceland.“ Höfundur og jafnframt flytjandi er Borgnesingurinn Geir Konráð Theódórsson hugmyndahönnuður. Leikstjóri er faðir hans Theódór Kr Þórðarson lögregluvarðstjóri og áhugaleikhússmaður til áratuga. Um lýsingu sér svo Eiríkur Þór Theódórsson, bróðir Geirs. „Við höfum farið af stað með verkið hægt og hljótt og erum nú byrjuð að leyfa gestum að fylgjast með tilraunasýningum. Viðbrögð hafa verið prýðileg. Nú hefur verið ákveðið að kýla á þetta og verður sýningin í boði daglega á næstunni, nema á laugardaginn, en þá tökum við frí út af Eurovisjón keppninni,“ segir Geir í samtali við Skessuhorn.

Gráskinna byggir á þremur íslenskum þjóðsögum og er sýningin sem með breiða skírskotun í helsta hlutverk Landnámssetursins; að flytja frásagnir af fornköppum íslenskum og halda sögunni hátt á lofti. „Sögurnar sem ég byggi verkið á eru Sæmundur Fróði, Galdraloftur og Hellismannasaga sem gerist í Surtshelli í Hallmundarhrauni.“ Geir Konráð segir það hafa verið skemmtilegt að starfa með föður sínum og bróður við uppfærslu á sýningunni. „Pabbi er líka afar stoltur af því að eiga hlutdeild í þessari sýningu, ekki síst í ljósi þess að Ungmennafélagið Skallagrímur á hundrað ára afmæli um þessar mundir. Pabbi hefur þannig náð að fylgja félaginu eftir í leik og starfi nánast alla tíð,“ segir Geir Konráð í gamansömum tón.

Hann bætir því við að lokum að fyrirhugað sé að bjóða íbúum á Vesturlandi að sjá sýningarnar sér að kostnaðarlausu gegn framvísun nafnskírteinis eða jafngildra skilríkja. „Það er svona þakklætisvottur Landnámssetursins til samfélagsins á Vesturlandi, en setrið er tíu ára á þessu ári. Íbúar eru jafnframt þeir bestu til að breiða hróður okkar út til gesta og því hagur okkar að sem flestir viti um hvað Gráskinna fjallar,“ segir Geir Konráð Theódórsson, handritshöfundur og leikari.

Nánari upplýsingar um sýningartíma er að finna á www.landnamssetur.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir