Átta börn í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit með hjálmana sína. Hjá þeim eru kiwanismennirnir Halldór Fr Jónsson og Jón Trausti Hervarsson. Ljósm. hka.

Árlegri hjálmagjöf Kiwanis tekið fagnandi

Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranesi færir á hverju ári börnum í fyrsta bekk grunnskóla að gjöf reiðhjólahjálma í samvinnu við Eimskip. Börnin sem njóta eru í Borgarnesi, Hvalfjarðarsveit og á Akranesi, alls 132 að þessu sinni. Eimskip styður fjárhagslega og flutningalega við verkefnið og sýnir með því framtaki mikla samfélagslega ábyrgð. Félagar í Kiwanisklúbbum landsins sjá svo um skipulag og dreifingu til barnanna. Einungis í Reykjavík er ekki leyft að færa fyrstu bekkingum slíkar gjafir vegna reglna borgarinnar um auglýsingar á gjöfum.

Hildur Karen Aðalsteinsdóttir er verkefnastjóri umferðafræðslu og fylgir Þyrilsmönnum til að fræða börnin um rétta notkun reiðhjólahjálma. Áður en að krakkarnir á Akranesi og Heiðarskóla fengu hjálmana sína afhenta þá sýndi Hildur Karen þeim á sjónrænan hátt hvað höfuðið er viðkvæmt fyrir þungum höggum. Í Borgarnesi fræddu lögreglumenn um slíkt hið sama. Olli Egg sýndi muninn á falli með hjálm og án varnar. Olli Egg fékk enga sprungu við fallið þegar hann var með sérútbúinn eggjahjálm, en varð að spæleggi þegar engin vörn var notuð. Það var því öllum ljóst sem fylgdust með Olla Eggi að reiðhjólahjálmarnir eru mikilvægur öryggisbúnaður og illa getur farið ef þeir eru ekki notaðir.

 

Fleiri myndir af hjálmagjöfunum er að finna í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir