Sala á SÁÁ álfinum hefst í dag

Árleg álfasala SÁÁ hefst um land allt í dag, 10. maí og stendur fram á sunnudaginn 15. maí.  Hún er nú haldin í 27. skipti. Álfasalan er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ ár hvert. Allur ágóði af sölunni rennur til að greiða fyrir þjónustu SÁÁ við ungt fólk, bæði afeitrun og meðferð, sálfræðiþjónustu barna eða aðra þjónustu við fjölskyldur áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Víða um land, þar á meðal á Vesturlandi, er salan ekki aðeins liður í fjáröflun SÁÁ því að sölufólk er oft úr hópum á vegum íþróttafélaga eða annarra samtaka og hópa sem nota vegleg sölulaunin til þess að greiða fyrir ferðalög eða kosta eigið félagsstarf í heimabyggð. Meðal þeirra sem selja Álfinn í ár er hópur knattspyrnustúlkna úr 3. flokki á Akranesi, í Stykkishólmi kemur sölufólkið úr 6. bekk grunnskólans en í Grundarfirði, Ólafsvík, Hellissandi og Rifi er 4. flokkur í knattspyrnu sem sér um söluna.

Líkt og undanfarin ár er slagorð álfasölunnar í ár: ‚‚Álfurinn fyrir unga fólkið‘‘. Þannig er undirstrikuð áhersla á meðferðarúrræði samtakanna fyrir ungt fólk og einnig fyrir börn og aðra aðstandendur þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Frá árinu 2000 hefur SÁÁ rekið unglingadeild á sjúkrahúsinu Vogi en frá því að sjúkrahúsið var byggt hafa yfir 8000 einstaklingar yngri en 25 ára lagst þar inn.  SÁÁ veitir einnig sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Um 1.100 börn hafa nýtt þá þjónustu sem er kostuð með tekjum af Álfinum og öðrum styrkjum. Það sama á við um viðtöl, ráðgjöf og námskeið sem samtökin veita öðrum aðstandendum. Álfasala SÁÁ er eitt umfangsmesta fjáröflunarverkefni á vegum almannasamtaka hér á landi á hverju ári.  Frá 1990 hefur Álfurinn skilað samtökunum um 600 milljónum króna í hreinar tekjur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir