Jákvæður rekstur og betra skuldahlutfall

Ársreikningur Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2015 var til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær. Rekstrarniðurstaða er jákvæð. Tekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.151 milljón króna samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, þar sem A – hluti stendur fyrir bæjarsjóð en B – hluti fyrir stofnanir og fyrirtæki. Þar af námu rekstrartekjur bæjarsjóðs 1.066 milljónum króna. Þá námu rekstrargjöld sveitarfélagsins 994,3 milljónum, þar af var hluti bæjarsjóðs 957,4 milljónir að meðtöldum hækkunum vegna lífeyrisskuldbindinga starfsfólks. Rekstrarniðurstaða samantekins ársreiknings er því jákvæð um 32,7 milljónir króna. Þar af er rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs jákvæð um 16,8 milljónir. Hafnarsjóður var rekinn með um það bil 13,9 milljóna króna hagnaði og fráveita með 6,9 milljónum í plús. Þá hafa tekjur aukist hjá bæjarsjóði um rúmar 175 milljónir. Skuldahlutfall bæjarsjóðs hefur lagast mikið milli ára og er nú 107,5% af skatttekjum en var 126,8% árið á undan og 135,8% árið 2013. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2015 nam 983 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé bæjarsjóðs 1.151 milljón króna. Að sögn Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra markast rekstrarniðurstöður mjög af hækkun launakostnaðar miðað við fjárhagsáætlun.

Helstu fjárfestingarhreyfingar Stykkishólmsbæjar eru annars vegar sala á húsnæði Amtsbókasafnsins við Hafnargötu 7 að upphæð 48 milljónir króna og hins vegar fjárfestingar að upphæð 80,3 milljónir kr. Þær helstu eru fjárfesting í gatnagerð og deiliskipulag að upphæð 28,8 milljónum króna og viðbygging við Grunnskóla Stykkishólms að upphæð 20,6 milljónir króna.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir