Ólafur Ragnar hættir við framboð

Ólafur Ragnar Grímsson mun ekki gefa kost á sér til endurkjörs til forseta Íslands í komandi kosningum. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá forsetanum sem send var fjölmiðlum rétt í þessu. Ólafur hafði í nýársávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar 1. janúar tilkynnt að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs, en breytti þeirri ákvörðun 18. apríl. Í tilkynningunni sem nú var send segir að „í kjölfar hinnar sögulegu mótmælaöldu sem reis hátt í byrjun apríl knúðu margir á um að ég breytti þessari ákvörðun og gæfi kost á mér á ný þótt ég hefði þegar gegnt embætti forseta í tuttugu ár; höfðuðu til umróts og óvissu og lítils fylgi yfirlýstra frambjóðenda. Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu.“

Þá segir í yfirlýsingu Ólafs að nú sé orðið ljóst með atburðum síðustu daga að þjóðin eigi nú kost á að velja frambjóðendur sem hafi umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins og að niðurstaða kosninganna gæti orðið áþekkur stuðningur við nýjan forseta og fyrri forsetar fengu við sitt fyrsta kjör. „Við þessar aðstæður er bæði lýðræðislegt og eðlilegt, eftir að hafa gegnt embættinu í 20 ár, að fylgja í ljósi alls þessa röksemdafærslu, greiningu og niðurstöðu sem ég lýsti í nýjársávarpinu. Ég hef því ákveðið að tilkynna með þessari yfirlýsingu þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til endurkjörs. Um leið þakka ég einlæglega þann mikla stuðning sem ég hef notið og vona að allt það góða fólk sem hvatti mig til framboðs sýni þessari ákvörðun velvilja og skilning. Þessi niðurstaða mín er studd þeirri fullvissu að þjóðin getur nú farsællega valið sér nýjan forseta og ég er, eftir langa setu hér á Bessastöðum, bæði í huga og hjarta reiðubúinn að ganga glaður til nýrra verka.“

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir