Valdimar og Sigurþór með vottunina.

VS Tölvuþjónusta á Akranesi fær alþjóðlega vottun

VS Tölvuþjónusta ehf. á Akranesi fékk nýverið staðfesta alþjóðlega upplýsingaöryggisvottun á starfsemi sína á Íslandi samkvæmt staðlinum ISO 27001. Um er að ræða alþjóðlegan staðal frá vottunarstofunni BSI og felur vottunin í sér að fyrirtækið uppfyllir fyrirfram staðlaðar kröfur sem byggja á árlegum úttektum á fyrirtækinu. VS Tölvuþjónusta hefur verið starfandi frá því í júlí 2014 þegar eigendur fyrirtækisins, Valdimar Þór Guðmundsson og Sigurþór Þorgilsson, tóku við þeim hluta af rekstri Tölvuþjónustunnar Securstore ehf. sem sneri að hýsingu á tölvubúnaði, rekstrarþjónustu og skýjalausnum. Þá er VS Tölvuþjónusta þjónustu- og umboðsaðili fyrir fyrirtækið Keepitsafe, fyrirtæki staðsett í Írlandi sem keypti afritunarþjónustu Securstore.

„Við erum fyrirtæki sem getur aðstoðað við alla þjónustu í kringum tölvur, tölvubúnað og rekstur tölvukerfa fyrir stór og smá fyrirtæki.Við getum því veitt hýsingu, þjónustu og gott aðgengi að sérfræðiþjónustu,“ segja Valdimar og Sigurþór í samtali við Skessuhorn. Þeir segja vottunina mikinn áfanga, enda sýni hún að fyrirtækið fylgi ákveðnum reglum og ferlum varðandi öryggi upplýsinga. „Það tók hátt í ár að fá vottunina endanlega. Svo er henni haldið við, það kemur úttektarmaður til okkar á hverju ári sem tryggir að starfað sé eftir þessum ferlum,“ segja þeir. Til að fá vottunina þurfti fyrirtækið að innleiða ákveðið stjórnkerfi. Í tilfelli VS Tölvuþjónustu þá nær stjórnkerfið utan um allan rekstur fyrirtækisins en það er algengast að fyrirtæki fái aðeins vottun á takmarkaðan hluta starfseminnar. „Við erum einnig búnir að skilgreina allar hættur sem við teljum að geti haft áhrif á reksturinn og erum búnir að hugsa upp og innleiða ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir. Við þurfum að vita hvað er hægt að gera ef rafmagnið fer af, ef það er brotist inn, gerðar tilraunir til upplýsingastuldar eða ef við skyldum lenda í eldsvoða eða vatnstjóni, svo dæmi séu tekin. Það þarf að hugsa fyrir þessu öllu og gera aðgerðaráætlanir. Við erum því ávallt í viðbragðsstöðu og sífellt á tánum við að finna nýjar leiðir til að fyrirbyggja að gögn tapist.“ Sigurþór og Valdimar segja að ekki sé gerð krafa um að fyrirtæki í tölvugeiranum hafi þessa alþjóðlegu upplýsingaöryggisvottun. „Almennt eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem hafa þessa vottun. En við leggjum mikið upp úr því að hafa þetta til að sýna fram á að við tryggjum öryggi til okkar ýtrasta. Vottun sem þessi er mikils metin og vel þekkt í alþjóðlegu samhengi. Með þessu erum við líka búnir að sýna fram á að við erum vel samkeppnishæfir á erlendum markaði þar sem eru gerðar mun strangari kröfur um slíkar vottanir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir