Unesco tekur jákvætt í umsókn Saga Jarðvangs

Fulltrúar Saga Jarðvangs í Borgarfirði, þau Edda Arinbjarnar, Þórður Kristleifsson og Krisján Guðmundsson, hittu byggðarráð Borgarbyggðar á fundi í síðustu viku og kynntu fyrir sveitarstjórnarfulltrúm stefnumótun í útivist og ferðaþjónustu á jarðvangssvæðinu í uppsveitum Borgarfjarðar.  Auk þess sögðu þau frá umsókn Saga jarðvangs sem lögð var inn til Unesco fyrir síðustu jól. „Þetta eru stórar skýrslur og hafa fengið góðar viðtökur ytra. Okkur barst svo bréf um daginn frá Unesco þar sem forsvarsmenn samtakanna fagna umsókninni. Við tökum síðan á móti tveimur úttektaraðilum í sumar. Við erum bjartsýn og teljum að við séum komin með annan fótinn inn hjá Unesco sem er gríðarlegur árangur. Ef vel tekst til þá verðum við í kjölfarið samþykkt,“ segir Edda.

„Að fá viðurkenningu eða stimpil Unesco á jarðvangi hér yrði mikil lyftistöng fyrir Borgarfjörð og raunar Vesturland allt. Það yrði mikilvægt fyrir byggðarþróun en ekki síst gott fyrir markaðssetningu á ferðaþjónustu,“ segir Edda.  Saga Jarðvangur hefur nú ráðið Önnu Margréti Guðjónsdóttur í tímabundið starf verkefnisstjóra. Anna Margrét skrifaði Unesco skýrsluna og mun nú undirbúa komu fulltrúa samtakanna hingað til lands í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir