Dætur Engilberts, þær Elín Edda 8 ára og Stefanía Rakel 4 ára fengu það hlutverk að taka fyrstu skóflustungurnar að nýju blokkunum við Asparskóga. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Skóflustunga tekin að tveimur blokkum á Akranesi

Síðdegis í dag var fyrsta skóflustungan tekin að tveimur nýjum íbúðablokkum við Asparskóga 27 og 29 á Akranesi. Það er fyrirtækið Uppbygging ehf., í eigu Engilberts Runólfssonar byggingaverktaka, sem reisir húsin. Í hvoru húsi um sig verða 12 íbúðir, þriggja og fjögurra herbergja, 100-125 fermetrar með geymslum. Þær verða seldar fullbúnar með innréttingum og gólfefnum. Þessi framkvæmd er líklega stærsta einstaka framkvæmd í íbúðabyggingum í bæjarfélaginu frá hruni, en framkvæmdin kostar um 700 milljónir króna.

Engilbert stefnir á að fyrri blokkin verði tilbúin um næstu áramót en sú síðari 2-3 mánuðum síðar. „Við ætlum að byggja á stuttum tíma og höfum fengið til liðs við okkur hóp af þrautþjálfuðum iðnaðarmönnum af svæðinu,“ segir Engilbert. Húsið verður byggt úr forsteyptum einingum frá Loftorku í Borgarnesi, en meðal annarra sem að verkinu koma eru Al-hönnun Runólfs Þ. Sigurðssonar, Ylur sér um pípulagnir, Þráinn Gíslason um tréverk, Vélaleiga Halldórs um jarðvinnu, Bragi Sigurdórsson hjá Verkís hannar rafmagn en Rafsmiðjan leggur rafmagnið og er Arnar Sveinsson rafvirkjameistari hjá Rafsmiðjunni jafnramt byggingastjóri. Það verða fasteignasölurnar Hákot og Miðbær sem annast sölu íbúðanna. Engilbert segir að eftir um einn eða tvo mánuði muni söluverð íbúðanna liggja endanlega fyrir en segir þó að það muni losa 300 þúsund krónur fyrir fermetrann.

Engilbert kveðst bjartsýnn á að tímabil uppbyggingar á íbúðarhúsnæði sé að hefjast á Akranesi og í nágrenni og hyggur hann á fleiri framkvæmdir innan tíðar á Skaganum. Fyrir hrun rak Engilbert fyrirtækið Stafna á milli sem byggði um 70 íbúðir á Akraness, svo sem í Flatahverfinu og við Þjóðbraut. Við hrunið fór fyrirtækið á hliðina og hafði þá meðal annars verið byrjað á byggingu stóru blokkarinnar við Sólmundarhöfða en sú byggingarframkvæmd fór í nokkurra ára bið og lokið við hana af öðru fyrirtæki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir