Bræðurnir komnir á bryggjuna í Grundarfirði. Ásgeir Þór til vinstri og Heimir. Ljósm. tfk.

Fyrstir í land með strandveiðiskammt vorsins

 

Segja má að strandveiðarnar hafi byrjað með látum í Grundarfirði á mánudaginn, fyrsta strandveiðidegi  ársins. 25 bátar fóru til strandveiða og náðu þeir allir dagsskammtinum. Bræðurnir Ásgeir Þór og Heimir Þór Ásgeirssynir voru fyrstir í land á bátnum Petru ST-20 en þeir lögðu af stað rétt fyrir klukkan fjögur um morguninn. „Við fórum snemma út og sigldum í um það bil fjörutíu mínútur og settur rúllurnar niður um hálf fimm leytið í morgun,“ sagði Heimir Þór í stuttu spjalli við fréttaritara þegar komið var að landi. „Við vorum tvo tíma að ná skammtinum og vorum lagðir af stað í land aftur klukkan hálf sjö,“ bætir Heimir við. Þeir bræður voru svo búnir að landa og ganga frá tuttugu mínútur yfir sjö, eða áður en fólk var almennt komið á fætur í Grundarfirði. Ásgeir Þór ætlaði upphaflega ekki með í þennan túr en bróðir hans plataði hann með því loforði að þeir yrðu komnir í land fyrir klukkan tíu um morguninn, en Ásgeir átti að keyra flutningabíl um kvöldið og þurfti því að vera úthvíldur fyrir það. „Já, ég lofaði honum að við yrðum komnir fyrir tíu, í seinasta lagi fyrir hádegi þannig að hann sló til og skellti sér með,“ segir Heimir Þór og er vafalaust feginn að hafa bróðir sinn með sér fyrst fiskiríið var þetta gott.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir