Guðni Th á fundi í Reykholti. Ljósm. Guðlaugur Óskarsson.

Guðni Th Jóhannesson í framboð til forseta

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur lýsti í dag formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Íslands. Það gerði hann á fjölmennum fundi sem hann boðaði til í Salnum í Kópavogi klukkan 14 í dag. Þar sagði Guðni meðal annars. „Forseti á að vera í nánum tengslum við alla landsmenn og ekki í liði með einum eða neinum.“ Lýsti hann þeirri skoðun sinni að forseti Íslands eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar og að forseti eigi að tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið í stórum álitamálum. Guðni mun næstu vikurnar ferðast um landið, hitta fólk og kynna sýn hans á embættinu. Segja má að fyrsti fundur hans hafi verið í síðustu viku í Snorrastofu í Reykholti, en hann lauk veru sinni í fræðimannsíbúð staðarins með að boða til spjallfundar með Borgfirðingum. Þar lýsti hann hvernig forsetar á lýðveldistímanum hafa gegnt starfinu og mótað það í áranna rás. Í Reykholti var Guðna afhentur listi með áskorunum um að fara í framboð. Nú hefur hann tekið þeim áskorunum.

Auk Guðna hefur ríflega tugur boðað framboð. Meðal þeirra eru Ólafur Ragnar Grímsson, Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason. Gera má ráð fyrir að þessir fjórir einstaklingar hljóti mest fylgi í kosningunum sem fram fara 25. júní nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira