Notkun lykkjanna var sýnd á Jökulsárlóni fyrir skömmu. Ljósm. Landsbjörg.

Níu björgunarlykkjur væntanlegar á Vesturland

Eins og fram kom í Skessuhorni í síðustu viku hefur Landsbjörg í samráði við Vegagerðina og Sjóvá ákveðið að standa að uppsetningu og kynningu björgunarlykkju, svokölluðu Björgvinsbelti, við áfangastaði þar sem hætta getur verið á drukknun, svo sem við sjó, vötn og ár. Í fyrsta áfanga verða björgunarlykkjur settar upp á 100 stöðum víðsvegar um landið í sumar. Áður hafi vinnuhópur áhættugreint og forgangsraðað stöðum við þjóðvegi landsins með tilliti til drukknunarhættu. Þessir 100 staðir, sem fjölsóttir eru af íbúum og erlendu sem innlendu ferðafólki, voru settir í fyrsta forgang og er byrjað að setja upp björgunarlykkjur á þeim. Einnig er í bígerð að gefa búnað í lögreglubifreiðar og til slökkviliða.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu, vegna fyrirspurnar Skessuhorns, verða settar björgunarlykkjur á níu stöðum á Vesturlandi. Það er við Borgarfjarðarbrú, Kolgrafafjörð, Haffjarðará, við Hraunfossa, á Djúpalónssandi, Skarðsvík, Búðum, Hellnum og Arnarstapa. Fleiri staðir gætu átt eftir að bætast við, að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörgu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir