Á myndinni eru frá vinstri: Guðmundur Pálsson, Rósa Guðmundsdóttir, Rut Rúnarsdóttir og Jón Pétur Pétursson. Á myndina vantar Hólmfríði Hildumundardóttur.

Fregnir úr skíðabrekkum Grundfirðinga

Áhugamenn um skíðasvæðið í Grundarfirði hittust nýverið í Sögumiðstöðinni. Þá var fundargestum tjáð að vel hefði gengið að safna fyrir diskum á lyftuna en 15 diskar eru komnir og 55 á leiðinni og að búið að greiða fyrir alla diskana. Þessu var safnað á örskotsstundu með dyggri hjálp bæjarbúa og fyrirtækja. Diskarnir verða ekki settir upp fyrr en það fer að snjóa aftur því að það á einungis að hafa þá uppi á meðan lyftan er í gangi og verða þeir settir í geymslu þess á milli. Þá var ný stjórn skipuð og hana skipa Rósa Guðmundsdóttir formaður, Hólmfríður Hildimundardóttir og Guðmundur Pálsson gjaldkerar, Rut Rúnarsdóttir ritari og Jón Pétur Pétursson meðstjórnandi. Ákveðið var að hafa vinnudag í lyftunni dagana 28 – 29. maí næstkomandi en þá á að klæða skíðaskálann og dytta að því sem þarf að gera. Það er því ljóst að mikill hugur er í skíðaáhugamönnum á Snæfellsnesi en til stendur að fjárfesta í snjótroðara og húsi undir hann við fyrsta tækifæri. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála og vona að í framtíðinni megi búast við snjóþyngri vetrum!

Líkar þetta

Fleiri fréttir